Enski boltinn

O'Neill vill svör frá Capello

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Emile Heskey í leik með enska landsliðinu.
Emile Heskey í leik með enska landsliðinu. Nordic Photos / Getty Images
Martin O'Neill, knattspyrnustjóri Aston Villa, ætlar að leita svara hjá Fabio Capello, landsliðsþjálfara Englands, um af hverju Emile Heskey spilaði landsleikinn gegn Spánverjum í vikunni.

Heskey meiddist í leik Aston Villa gegn Blackburn um síðustu helgi en læknar enska landsliðsins sögðu hann vera leikfærann fyrir leikinn gegn Spánverjum. Hann haltraði hins vegar af velli eftir 48 mínútur og er nú tæpur fyrir leik Aston Villa gegn Everton í ensku bikarkeppninni á morgun.

„Ég hef rætt við lækni landsliðsins og sagt honum frá mínum áhyggjum. Ég mun einnig ræða við landsliðsþjálfarann," sagði O'Neill.

„Emile hefði sjálfsagt ekki látið smá óþægindi stöðva sig en það kom mér samt á óvart að hann hafi fengið að spila ef hann hefur verið meiddur. Ég hef ekkert á móti því að menn spili landsleiki en það er annað mál þegar menn hafa verið að glíma við meiðsli í einhverja daga á undan - sérstaklega þar sem að þetta var bara vináttulandsleikur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×