Innlent

Hjúkrunarheimilum lokað á næsta ári

Mynd/GVA
Félags- og tryggingamálaráðuneytið hefur ákveðið að loka hjúkrunarheimilunum í Víðinesi og á Vífilsstöðum 1. september 2010. Við lokunina flyst heimilisfólk á nýtt hjúkrunarheimili við Suðurlandsbraut sem stjórnvöld eru að byggja í samstarfi við Reykjavíkurborg og tekið verður í notkun á næsta ári að undangengnu útboði á rekstrinum, að fram kemur í sameiginlegri tilkynningu Hrafnistu og ráðuneytisins. Heimilisfólk í Víðinesi og á Vífilsstöðum sem ekki kýs að flytja á nýja hjúkrunarheimilið við Suðurlandsbraut getur óskað eftir flutningi til annarra hjúkrunarheimila. Breytingarnar eru liður í áætlun ráðuneytisins um fækkun fjölbýla og bættan aðbúnað aldraðra á hjúkrunarheimilum.

Starfsfólk á Vífilsstöðum og í Víðinesi mun njóta forgangs í störf á nýja hjúkrunarheimilinu í samræmi við kröfur í væntanlegum útboðsgögnum. Samningur hins opinbera við Sjómannadagsráð um rekstur Víðiness og Vífilsstaða er útrunninn, en aðilarnir hafa nú gert nýjan samning um að Hrafnista reki áfram heimilin tvö þar til af flutningi verður.

Fram kemur í tilkynningunni að stjórnendur Hrafnistu hafi kynnt starfsfólki hjúkrunarheimilanna þessar breytingar á fundi fyrr í dag ásamt fulltrúum frá félags- og tryggingamálaráðuneyti. Í kvöld hafa verið boðaðir kynningafundir með heimilisfólki og aðstandendum þess.

„Hrafnista hefur síðustu ár annast rekstur hjúkrunarheimilanna í Víðinesi og á Vífilsstöðum á grundvelli samninga við ríkið. Hjúkrunarheimilið í Víðinesi var opnað í apríl árið 1999 eftir miklar endurbætur á húsnæðinu. Árið 2002 tók Sjómannadagsráð við rekstrinum, þar sem eru tvær deildir fyrir 38 heimilismenn. Þar starfa 66 manns í 38 stöðugildum. Vífilsstaðir er hjúkrunarheimili fyrir 50 hjúkrunarsjúklinga. Hrafnista tók við rekstrinum árið 2003 og opnaði í byrjun árs 2004 að loknum gagngerum breytingum á húsnæðinu sem kostuðu rúmlega 300 milljónir króna. Á Vífilsstöðum starfa 96 manns í 51 stöðugildi," segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×