Innlent

Greiddi 7 þúsund krónur til að fá gjöf frá pabba

Tólf ára gömul stúlka sem fékk senda peysu með pósti frá pabba sínum í Bandaríkjunum þurfti að greiða rúmar sjö þúsund krónur til að fá gjöfina afhenta.

Dóttir Önnu Maríu Jónsdóttur er tólf ára og er faðir hennar búsettur í Bandaríkjunum. Fyrir jólin sendi hann henni með pósti peysu í jólagjöf. Þegar pakkinn skilaði sér kom í ljós að til að fá hann afhenta þurfti að greiða rúmar sjö þúsund krónur í aðflutningsgjöld. Slík gjöld eru rukkuð af gjöfum sem sem sendar eru til landsins og kosta meira en tíu þúsund krónur. Anna María segir algjörlega fáránlegt að það þurfi að greiða gjöld af gjöfinni og að aðeins sé miðað við tíu þúsund krónur.

Anna María segir ljóst að mörg íslensk börn hafi fengið gjafir frá foreldrum sínum sem kostuðu meira en tíu þúsund krónur og því sitji dóttir hennar ekki við sama borð og þau. Tíu þúsund krónur séu heldur ekki há upphæð þar sem krónan hefur veikst mikið undanfarið. En miðað hefur verið við sömu upphæðina í nokkur ár.

Peysan kostaði tæpa hundrað og þrjátíu bandaríkjadali eða um sextán þúsund krónur. Ofan á þetta bættast svo ríflega sex þúsund krónur í flutningskostnað og sjö þúsund krónurnar sem greiddar voru í aðflutningsgjöldin sem er tollur og virðisaukaskattur. Þetta þýðir að í heildina kostaði peysan og það að senda hana hingað til lands tæplega þrjátíu þúsund krónur. Anna María segir ólíklegt að faðirinn sendi slíka gjöf á næstunni með pósti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×