Innlent

Borgarstjóri í fyrsta þætti Björns

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Björn Bjarnason, fyrrum dómsmálaráðherra, og þáttastjórnandi á ÍNN. Mynd/Anton Brink
Björn Bjarnason, fyrrum dómsmálaráðherra, og þáttastjórnandi á ÍNN. Mynd/Anton Brink
„Mér þykir þetta nú bara skemmtilegt viðfangsefni," segir Björn Bjarnason, fyrrum dómsmálaráðherra, en nýr sjónvarpsþáttur hans á ÍNN hóf göngu sína í gærkvöld.

Hann fékk til sín Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, borgarstjóra, og ræddu þau þróun borgarmálanna og Evrópusambandið svo nokkuð sé nefnt.

Í spjalli þeirra kom meðal annars fram álögur ríkisins á Reykjavíkurborg hefðu aukist um 995 milljónir króna með lagabreytingum. Þá lýsti Hanna einnig undrun sinni á að ekki hefði verið fallist á tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við ESB.

Björn segir spennandi að sjá hver framvinda þáttarins verður, en sá næsti er á dagskrá eftir tvær vikur. Hann segist hafa lagt línurnar að gestum næstu þátta, og reynir að fá til sín fólk sem getur fjallað um málefni í stærra samhengi en því hvaða mál eru efst á baugi þann klukkutímann.

Þetta er ekki fyrsti þátturinn sem Björn stýrir, því hann sá um þáttagerð fyrir RÚV á sínum tíma.

„Ég var með þætti í Ríkissjónvarpinu fyrir mörgum árum um alþjóðamál, svo ég er ekki alveg nýr í sjónvarpi. En það er nýtt að vera með svona rúman tíma til að fá til mín gesti og ræða við þá," segir Björn.


Tengdar fréttir

Björn Bjarnason undirbýr þátt á ÍNN

Björn Bjarnason er þegar tekinn til við að undirbúa sjónvarpsþátt sinn á ÍNN. Í nýjustu dagbókarfærslunni á heimasíðu hans segist hann hafa farið inn á stöðina til að lesa inn stutta tilkynningu í tilefni af því að þáttur hans hefur göngu sína á ÍNN þann 19. ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×