Innlent

Fimm nýjar kennsluvélar til Keilis

Fyrstu erlendu flugnemarnir eru væntanlegir í næsta mánuði til náms í Flugakademíu Keilis á Keflavíkurflugvelli, sem kynnti í dag fimm nýjar kennsluvélar. Nærri eitthundrað Íslendingar stunda nú nám þar í hinum ýmsu greinum flugsins.

Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Keilis, segir að koma flugvélanna fimm þýði tæknilega byltingu í flugkennslu hérlendis. Ólíkt öðrum kennsluvélum eru þær ekki amerískar og heita hvorki Cessna né Piper, þessar koma frá Austurríki, heita Diamond, og eru úr koltrefjum, eins og nýjustu þotur Airbus og Boeing.

Gömlu hringlaga mælarnir eru horfnir úr stjórnborðinu en í staðinn komnir rafrænir tölvuskjáir. Hreyflarnir þykja einnig nýstárlegir fyrir litlar kennsluvélar og afar sparneytnir; dieselvélar sem ganga fyrir þotueldsneyti.

Kári Kárason, skólastjóri Flugakademíunnar, segir að kennsluvélarnar, sem notaðar eru í dag, séu flestar hannaðar í kringum 1950 og hafi ekkert breyst til fjölda ára. Nýju vélarnar leiki í höndum flugnema. Það sé draumur að fljúga þeim, segir Kári.

Nám í flugumferðarstjórn og flugfreyjunám eru einnig hafin og eftir áramót bætast við flugvirkjun og flugrekstrarfræði. Þá er fyrsti erlendi flugneminn væntanlegur í næsta mánuði frá Kína, en Hjálmar segir að vegna gengis krónunnar sé flugnám hérlendis mjög samkeppnisfært. Langtímamarkmið Keilis sé að fara í útrás, fá hingað útlendinga. Þeir fyrstu séu að koma í flugið og útlendingar séu einnig að koma í orkuskóla Keilis. Aðstaðan í 2.000 íbúðum á flugvallarsvæðinu bjóði upp á það að fá útlendinga, segir Hjálmar, svo fremi að Íslendingar hafi eitthvað að bjóða, sem þeir svo sannarlega hafi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×