Innlent

Fjölda GPS-tækja stolið úr bílum á höfuðborgarsvæðinu

Fjölda GPS-tækja hefur verið stolið úr bílum á höfuðborgarsvæðinu upp á síðkastið og því vekur lögreglan á þessu sérstaka athygli. Hún biður jafnframt eigendur eða umráðamenn ökutækja að skilja ekki verðmæti eftir í bílum. Sé það óumflýjanlegt er mikilvægt að slíkir hlutir séu ekki í augsýn.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni hefur undanfarnar vikur og mánuði verið mikið um innbrot í bíla á höfuðborgarsvæðinu og því vill lögreglan ítreka enn og aftur að verðmæti séu ekki skilin eftir í bílum. Tölvur, myndavélar, hljómflutningstæki og radarvarar eru meðal þess sem hafa löngum freistað þjófa en nú má bæta svokölluðum GPS-tækjum á þennan lista.

Þegar tilkynningar til lögreglu um innbrot í bíla eru skoðaðar kemur í ljós að þjófar láta til skarar skríða jafnt að degi sem nóttu. Og brotavettvangur getur ýmist verið á bifreiðastæði við verslunarmiðstöð, kvikmyndahús, sundlaug eða útivistarsvæði, svo nokkur dæmi séu tekin.

Fólk getur sömuleiðis orðið fyrir á barðinu á þjófum hvort heldur bílnum er lagt utan við heimilið eða vinnustaðinn. Þetta er nauðsynlegt að hafa í huga en besta ráðið er auðvitað að skilja ekki verðmæti eftir í bílum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×