Fjögurra klukkustunda löngum fundi fjárlaganefndar Alþingis um Icesave-frumvarpið lauk á þriðja tímanum í dag en málinu var vísað til nefndarinnar á ný eftir að Alþingi lauk annarri umræðu um það í gærkvöldi.
Að sögn Guðbjarts Hannessonar, formanns fjárlaganefndar, heldur nefndin áfram að fjalla um málið á mánudagsmorgun og kveðst hann ekki þora að segja neitt um hvenær það verður sent úr nefndinni til lokaafgreiðslu Alþingis. Meðal þeirra sem komu fyrir nefndina í dag voru fulltrúar InDefence-hópsins, sem lýstu efasemdum um að fyrirvarar Alþingis haldi.
Við atkvæðagreiðsluna eftir aðra umræðu í gærkvöldi naut ríkisábyrgðin stuðnings nær allra þingmanna nema framsóknarmanna.