Innlent

Atvinnuleysi jókst um 45 prósent á milli mánaða

Skráð atvinnuleysi var tæp fimm prósent í desember og jókst það um 45 prósent að meðaltali frá mánuðinum á undan. Búist er við að atvinnuleysi aukist verulega nú í janúar.

Þessar tölur koma fram í nýju yfirliti um stöðuna á vinnumarkaði, sem Vinnumálastofnun sendi frá sér nú rétt fyrir hádegi. Þar kemur fram að skráð atvinnuleysi í desember 2008 var 4,8 prósent, sem þýðir að tæplega átta þúsund manns voru að meðaltali skráðir án atvinnu. Atvinnuleysið jókst um 45 prósent að meðaltali frá því í nóvember, en á bak við þá hlutfallstölu eru tæplega 2.500 manns. Atvinnuleysi hefur ekki verið jafn mikið frá því í janúar árið 1997 og má nefna til samanburðar að á sama tíma árið 2007 var atvinnuleysi 0,8 prósent.

Atvinnuleysi er nú mest á Suðurnesjum - mælist 9,7 prósent - en er minnst á Vestfjörðum - 1 prósent. Atvinnuleysi hefur aukist um 46 prósent á höfuðborgarsvæðinu og um 44 prósent á landsbyggðinni. Atvinnuleysi eykst mun meira meðal karla en kvenna. Ástæða þess er meðal annars meiri samdráttur í greinum sem karlar starfa í. Þá hefur atvinnuleysi ungs fólks aukist meira en þeirra sem eldri eru.

Vinnumálastofnun gerir ráð fyrir áframhaldandi samdrætti í mörgum atvinnugreinum einkum verslun, mannvirkjagerð og þjónustugreinum á næstu mánuðum. Auk þess munu mörg minni fyrirtæki eiga við mikinn fjárhagsvanda að stríða, meðal annars vegna mikils fjármagnskostnaðar. Vinnumálastofnun segir erfitt að áætla atvinnuleysi um þessar mundir vegna mikillar óvissu í efnahagslífinu, en líklegt er talið að nú janúar muni það aukast verulega og verða á bilinu 6,4 til 6,9 prósent.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×