Erlent

Kínverjar einangra sjötíu flugfarþega frá Mexíkó

Mexíkósk yfirvöld eru æf þeim kínversku fyrir að hafa einangrað sjötíu Mexíkóa í Kína af ótta við svínaflensusmit. Stjórnvöld í Mexíkó hafa nú látið sækja fólkið.

Mexíkóskri flugvél var flogð til Sjanghæ í Kína í morgun og síðan Peking, Guangzhou og Hong Kong til að sækja fólkið. Rúmlega sjötíu Mexíkóar höfðu verið settir í einangrun á þessum stöðum vegna svínaflensunnar en kínversk stjórnvöld óttuðust að fólkið bæri með sér smit. Þá hafði einn Mexíkóskur ferðamaður greindist með flensuna í Kína en sá hafði flogið til Sjanghæ og síðan Hong Kong. Ekki er vitað hvort fólkið sem sett var í einangrun átti nokkur samskipti við manninn sem smitaðist.

Stjórnvöld í Mexíkó hafa gagnrýnt Kínverja fyrir þetta og segja þá mismuna fólki á grundvelli þjóðernis. Ráðamenn í Peking segja aðgerðirnar réttlætanlegar í ljósi atburða síðustu daga. Allt fólk sem fór í sama flug og sýkti maðurinn var leitað uppi og það sett í einangrun. Einnig allir á hóteli mannsins í Hong Kong þar sem hann gisti þegar hann greindist með flensuna.

Kínversk yfirvöld segja allt fólkið í góðu yfirlæti meðan það sé í einangrun. Gestirnir segjast samt margir upplifa þetta líkt og um mannrán væri að ræða. Fleiri lönd virðast á leið í deilur við Kínverja. Kanadamenn krefja þá skýringa á því af hverju tuttugu kanadískir námsmenn í Changchun í norð austur Kína hafi verið settir í einangrun þó enginn úr hópnum sé með einkenni flensu.

Sendiráð Bandaríkjanna í Kína kannar einnig afhverju fjórir Bandaríkjamenn hafi verið settir í einangrun vegna gruns um svínaflensusmit. Ellefu hundruð tuttugu og fjórir hafa greinst með svínaflensuna í tuttugu og einu landi að sögn Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×