Skemmdarverk hafa verið unnið á nýstofnaðri síðu Nýs lýðveldis þar sem skorað er á forseta og Alþingi að hlutast til um myndun utanþingsstjórnar og boðun stjórnlagaþings, að fram kemur í tilkynningu frá Ólínu Þorvarðardóttur sem er einn af forsvarsmönnum Nýs lýðveldis. Aðstandendur síðunnar hugleiða nú stöðuna og munu snúa sér með málið til lögreglu.
Í morgun höfðu rúmlega þrjú þúsund undirskriftir borist á síðuna en hún hafði þá verið opin í rúman sólarhring. Um svipað leyti urðu aðstandendur síðunnar varir við að eitthvað undarlegt var á seyði, því birtum undirskriftum fór fækkandi. Nú sýnir talingin 0.
,,Það er sorglegt að svona skuli komið fyrir umræðu og tjáningarfrelsi í landinu á þessum erfiðu tímum; að einhver skuli leggja á sig að eyðileggja frjálsan, opinn, umræðuvettvang til þess að þagga niður þessa eðlilegu kröfu. Það mun ekki takast," segir Ólína.
Skemmdarverk á vefsíðu Nýs lýðveldis

Tengdar fréttir

Nýtt lýðveldi kom fyrir hvítum borðum
Hvítum borðum var komið fyrir á ljósastaurum um alla borg í nótt. Hópur sem kallar sig Nýtt lýðveldi stóð fyrir þessu en hóurinn berst fyrir því að ný stjórnarskrá verði skrifuð og að nýtt lýðveldi verði stofnað á grundvelli hennar.

Vilja að boðað verði til stjórnlagaþings
Síðar í dag verður hleypt af stokkunum undirskriftarsöfnun á vefsíðunni www.nyttlydveldi.is. Þar gefst þjóðinni kostur á að skora á Alþingi að samþykkja að boða til stjórnlagaþings, nýjan þjóðfund.