Innlent

Jöfnu kynjahlutfalli fagnað

Stjórn Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar fagnar því að nú er að nýju jafnt hlutfall kynjanna í ríkisstjórn Íslands. Í yfirlýsingu frá stjórninni er bent á að það hafi tekið íslenska lýðveldið 65 ár að ná því sjálfsagða jafnrétti að hafa ríkisstjórn skipaða jafn mörgum konum og körlum og nú hefur það gerst tvisvar sinnum á sama árinu.

Það gerðist fyrst í minnihlutastjórn Samfylkingar og VG og nú er hlutfallið aftur orðið jafnt í kjölfar þess að Álfheiður Ingadóttir kom inn í ríkisstjórn í stað Ögmundar Jónassonar.

„Það er trú Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar að með þessu sé mótað fordæmi til framtíðar þannig að hér eftir muni ríkisstjórnir Íslands ávallt verða skipaðar til jafns konum sem körlum," segir að lokum. Undir yfirlýsinguna ritar Steinunn Valdís Óskarsdóttir, þingkona Samfylkingarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×