Innlent

Unglingar stálu frá einhverfum öryrkja

Piltarnir brutust inn í samtals tólf strætisvagna og stálu þar rúmum 400 þúsundum.
Piltarnir brutust inn í samtals tólf strætisvagna og stálu þar rúmum 400 þúsundum.

 Sex ungir menn hafa verið ákærðir fyrir margvísleg brot, ýmist saman eða hver í sínu lagi. Meðal annars notfærði einn þeirra sér andlegan misþroska einstakling, sem er einhverfur og 75 prósent öryrki, með því að nota debetkort og pin-númer hans og taka út fjörutíu þúsund krónur. Peningunum deildi hann með sumum félaga sinna.

Annar í hópi sexmenninganna lét greipar sópa í Hagkaupum í Smáralind, þar sem hann stal meðal annars ilmvatni, brúnkukremi og minniskorti. Hann var einnig ákærður fyrir fíkniefnaakstur.

Hinn þriðji var einnig ákærður fyrir þjófnað. Meðal annars þreif hann rándýra húfu af höfði drengs í Kringlunni og hljóp með hana í burtu.

Þá eru þrír piltanna ákærðir fyrir að hafa brotist inn í samtals tólf strætisvagna og stolið úr þeim söfnunarbaukum með að minnsta kosti rúmlega 400 þúsund krónum.

Tveir piltanna eru svo ákærðir fyrir að hafa stöðvað bifreið í Hafnarfirði og misþyrmt bílstjóranum þannig að hann hlaut talsverða áverka. Piltarnir voru sextán og átján ára þegar þeir frömdu brotin.- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×