Innlent

Vistmönnum úthýst af elliheimili

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Guðbjörg Stefánsdóttir ásamt móður sinni á leið frá Djúpavogi til Hafnar í dag.
Guðbjörg Stefánsdóttir ásamt móður sinni á leið frá Djúpavogi til Hafnar í dag.
„Ekki veit ég hvert hún móðir mín fer. Hún er heimilislaus eins og er, ég get ekki skilið annað," segir Guðbjörg Stefánsdóttir, en móðir hennar bjó að öldrunarheimilinu á Djúpavogi. Þegar Guðbjörg sótti móður sína í sumarfrí var þeim mæðgum tjáð að hún ætti ekki afturkvæmt. Öldrunarheimilinu yrði lokað vegna fjárskorts.

„Við fengum þetta í andlitið á leiðinni út um dyrnar. Að það ætti að skella í lás," segir Guðbjörg.

Til stóð að loka dvalarheimilinu í sex vikur yfir sumartímann, en samkvæmt Guðbjörgu hafði vistmönnum verið lofað að búið væri að tryggja fjármagn til að reka heimilið fram að áramótum að því loknu. Nú hefur hins vegar verið ákveðið að loka því til frambúðar. Að sögn Guðbjargar hefur hvorki móður hennar né hinum vistmönnunum þremur verið boðin nein önnur úrræði.

Að sögn Guðbjargar hefur móðir hennar, sem er á níræðisaldri, búið á Djúpavogi í sextíu ár.

„Ég hef reynt að fá hana til Hafnar, en þarna vill hún fá að vera. Ég þarf að taka hana nauðuga," segir Guðbjörg, sem sjálf býr á Höfn í Hornafirði. Hún segir móður sinni hafa verið gefin róandi lyf áður en þær yfirgáfu öldrunarheimilið í hinsta sinn.

Guðbjörg segist gera sér grein fyrir að rekstur sem þessi sé erfiður. Hún er þó reið vegna tímasetningarinnar og þess hvernig staðið var að lokuninni. Til dæmis hafi aðstandendur ekki verið boðaðir á fund vegna hennar, heldur hjúkrunarfólkið sagt henni frá nánast á leiðinni út.

Björn Hafþór GUðmundsson, sveitastjóri Djúpavogshrepps, staðfestir að heimilinu verði lokað fyrr en ætlað var. Talið hafi verið að Heilbrigðisstofnun Austurlands, sem rekur dvalarheimilið, gæti haldið rekstrinum áfram til áramóta. Hann segir hluta af ástæðu lokunarinnar sú hversu fáir nýta sér þjónustuna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×