Meðlimir úr mótorhjólaklúbbnum Fáfni eru mættir í komusalinn í Leifsstöð þar sem þeir bíða eftir að hitta félaga sína sem væntanlegir eru víðs vegar að úr heiminum í dag. Eftirlit hefur verið hert í stöðinni vegna þessa en félagar Fáfnismanna eru meðlimir í mótorhjólasamtökunum Hells Angels sem yfirvöld skilgreina sem skipulögð glæpasamtök.
Fáfnismenn hafa komið sér fyrir í nýju klúbbhúsi í Hafnarfirðinum og er koma Vítisenglanna hingað til lands í tilefni af opnunarhátíð sem halda á í húsnæðinu á morgun.
Samkvæmt heimildum Vísis munu Vítisenglarnir koma héðan og þaðan úr heiminum, frá Bandaríkjunum, Sviss, Hollandi, Frakklandi, Bretlandi, Þýskalandi og frá Norðurlöndunum en reiknað er með að einhverjir hafi komið með Oslóarvélinni frá Gardemoen sem lenti núna klukkan 12:15.