Innlent

Kvikan suðvestur af Þórsmörk

Þórsmörk
Þórsmörk Mynd/ Vilhelm
Jarðskjálftavirknin í Eyjafjallajökli, sem rakin er til glóandi kviku í iðrum jarðar, er aðeins um fimm kílómetra suðvestur af Básum, einu helsta gistisvæði ferðamanna í Þórsmörk. Þar varð í fyrrakvöld skjálfti sem mældist tæp þrjú stig.

Veðurstofan hefur greint frá því að viðvarandi jarðskjálftavirkni undir Eyjafjallajökli frá því í júníbyrjun bendi til kvikinnskots. Að mati Páls Einarssonar, prófessors við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, gæti þetta kvikustreymi undir Eyjafjallajökli endað með eldgosi, en hann telur þó líklegast að eldvirknin endi sem kvikuinnskot undir yfirborði eldstöðvarinnar.

Eyjafjallajökull er virkt eldfjall og gaus síðast á árunum 1821-1823 fremur litlu gosi í tindi fjallsins. Meðan á því gosi stóð komu jökulhlaup undan Gígjökli en aðalleið ferðamanna inn í Þórsmörk liggur einmitt framhjá Gígjökli. Skjálftavirknin nú á upptök sín í norðaustanverðum Eyjafjallajökli, ofan Steinsholtsjökuls, sem er einnig skriðjökull. Þar varð til að mynda skjálfti í fyrrakvöld sem mældist 2,9 stig og voru upptök hans aðeins um fimm kílómetra suðvestur af Básum, þar sem Ferðafélagið Útivist er með gistiskála sína.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×