Innlent

Ragna vill auka framlög til dómstóla

Ragna Árnadóttir.
Ragna Árnadóttir. Mynd/Anton

Ragna Árnadóttir, dóms- og mannréttindaráðherra, hefur lagt til að fjárframlög til héraðsdómstóla verði aukinn og að héraðsdómurum verði fjölgað. Brýnt sé að bregaðast við vandann sem blasir við dómstólum. Þetta kom fram á þingfundi í dag.

Það var Ólöf Nordal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem hóf umræðuna en hún sagði fjárframlög til dómstóla ekki vera í samræmi við framlög til rannsóknaraðila. Steinunn Valdís Óskarsdóttir, þingmaður Samfylkingar og formaður allsherjarnefndar, sagði það hafa verið að mistök að gera 10% hagræðingarkröfu til dómsmála, lögreglu og fangelsismála.

„Það er ekki hægt að mínu viti að setja umtalsverða peninga í rannsóknir en líta ekki til þess að þessi mál þurfa síðan að fara fyrir dómstóla. Það er slæmt fyrir réttaröryggið í þessu landi að það verði gríðarlegur dráttur á að niðurstaða fáist. Bæði fyrir þjóðfélagið sjálft og einnig fyrir þá sem eiga ýmislegt undir því að niðurstaða fáist," sagði Ólöf.

Ragna sagði fjöldi dómsmála hafa stóraukist að undanförnu og jafnframt væri fyrirsjáanlegt að bæði sakamálum og einkamálum komi til með að fjölga.

Fram kom í máli Rögnu að Hæstiréttur telur sig ekki geta mætt sparnaðarkröfum yfirvalda nema með því að skerða verulega starfshæfni réttarins. Fjárveitingar til Hæstaréttar hafi um langt skeið verði afar naumar en um leið hafi málum við réttinn fjölgað umtalsvert. „Hæstiréttur bendir á að við blasir stórfelld fjölgun dómsmála í landinu sem tengjast hruni bankanna með einum eða öðrum hætti," sagði Ragna.

Ragna sagði brýnt að bregðast við fjárhagsvanda dómstólanna. „Ég hef lagt til að veitt verði aukalega fjármagni til héraðsdómstóla og að héraðsdómurum verði fjölgað auk aðstoðarmönnum."

Hún sagðist auk þess vilja að komið verði til móts við beiðni Hæstaréttar og að þeirri aukningu útgjalda verði mætt með hækkun dómsmálagjalda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×