Neytendur

„Þetta er bara al­gjör­lega galið“

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna. vísir/einar

Vinnubrögð fyrirtækja sem bjóða neytendum að borga jólainnkaupin í febrúar eru síðasta sort og gjörsamlega galin að mati formanns Neytendasamtakanna. Mörg dæmi séu um að fólk fari illa út úr slíkum viðskiptum þar sem er verslað núna og borgað seinna. 

Ýmis fyrirtæki bjóða viðskiptavinum að dreifa greiðslum í aðferð sem gjarnan er vísað til sem, verslaðu núna og borgaðu seinna. Aðferðin hefur sérstaklega verið auglýst í kringum stóra verslunardaga í nóvember og fyrir jól sem hentug leið til að borga jólainnkaupin seinna. Sum fyrirtæki bjóða upp á að viðskiptavinir borgi jólin í febrúar. 

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, varar við þessari aðferð sem hann segir færast í aukana.

„Kaupa núna, borga seinna er stórt vandamál og áhyggjuefni ekki bara hér á Íslandi heldur líka víða í Evrópu. Þar sem fólk er hvatt til að kaupa og kaupa og kaupa en að það geti þá borgað síðar og það er eitthvað sem við viljum ekki sjá. Því ef þú átt ekki efni á að borga í dag þá eru mjög litlar líkur á að þú hafir efni á því á morgun.“

Margir hafi farið illa út úr því

Lánin séu verulega dýr og oft erfitt að gera sér grein fyrir hve mikið þau kosta í raun. Fólk leiti gjarnan í lánin þegar yfirdráttarheimildin er búin.

„Við fáum reglulega til okkar fólk sem hefur farið illa út úr því að taka þessi létt-smálán og getur ekki staðið í skilum og þetta er yfirleitt þannig að þetta er síðasta sort. Það er eitthvað sem við viljum ekki sjá fólk gera og við viljum heldur ekki að heiðvirð fyrirtæki séu að þrýsta fólki út í það að taka lán sem það hefur ekki efni á að borga af. Það eru dýrustu lánin, allt að fjörutíu prósenta vextir. Þetta er bara algjörlega galið.“

Hann kveðst hissa og blöskrar að stærri fyrirtæki færi sig í hálfgerðan smálánarekstur.

„Við höfum verið að sjá bankana fara út í þetta. Við höfum verið að sjá símfyrirtæki fara í út í þetta. Ég bara bið þau um að staldra við og hugsa sig um hvað þau séu að gera að veita svona dýr lán. Þetta er algjör óþarfi.“


Tengdar fréttir

Kvika nú eini eigandi Netgíró

Kvika banki hefur gengið frá kaupum á áttatíu prósenta hlut í fyrirtækinu Netgíró og er nú eini eigandi félagsins. Fyrir átti bankinn tuttugu prósent, en viljayfirlýsing um kaupin var undirrituð síðasta sumar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×