Lífið

Hita upp fyrir friðarleiðtoga

sigur rós Hljómsveitin Sigur Rós hitar upp fyrir friðarleiðtogann Dalai Lama á þriðjudaginn.fréttablaðið/gva
sigur rós Hljómsveitin Sigur Rós hitar upp fyrir friðarleiðtogann Dalai Lama á þriðjudaginn.fréttablaðið/gva

Hljómsveitin Sigur Rós ætlar að spila á undan fyrirlestri Dalai Lama í Laugardalshöll á þriðjudaginn. Aðeins eitt lag verður á efnisskránni og er uppákoman ætluð sem falleg gjöf handa þeim gestum sem hafa borgað sig inn. Þátttöku Sigur Rósar hefur verið haldið leyndri í dágóðan tíma enda var henni ætlað að koma áhorfendum á óvart þegar að fyrirlestrinum kæmi. Skipuleggjandinn Þórhalla Björnsdóttir staðfesti þátttöku Sigur Rósar við Fréttablaðið en vildi annars ekkert tjá sig um málið.

Söngvarinn Jónsi verður reyndar ekki með félögum sínum í Höllinni því hann verður staddur erlendis á sama tíma. Hinir meðlimirnir sjá því um að koma áhorfendum í rétta hugarástandið áður en hinn andlegi leiðtogi Tíbets stígur á svið og eys úr viskubrunni sínum. Tónlist Sigur Rósar hefur einmitt verið lýst sem andlegri upplifun af aðdáendum sveitarinnar og því munu hugljúfir tónar hennar í Höllinni væntanlega eiga einkar vel við og auka eftirvæntinguna eftir Dalai Lama til muna. Eins og komið hefur fram er hljómsveitin að taka upp nýja plötu og verður friðarstundin í Höllinni því kærkomin pása frá stífu upptökuferlinu. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.