Erlent

Skókastarinn iðrast einskis

Skóm kastað að Bush í desember sl.
Skóm kastað að Bush í desember sl.
Íraski blaðamaðurinn sem kastaði skónum sínum að George Bush fyrrverandi bandaríkjaforseta iðraðist einskis þegar réttarhöldin yfir honum hófust í dag.

Hinn þrítugi Muntadhar al Zeidi varð heimsfrægur í einu vetfangi þegar hann kastaði báðum skónum sínum í George Bush á blaðamannafundi í síðustu heimsókn forsetans til Íraks.  Hann hrópaði um leið á arbísku  "Þetta er kveðjukossinn hundurinn þinn. Þetta er frá ekkjunum og munaðarleysingjunum og þeim sem voru drepnir í Írak."

Í arabaheiminum eru það einhverjar mestu móðganir sem hægt er að sýna manni að kasta í hann skóm og kalla hann hund.

Al Zeidi var handtekinn og hefur verið kærður fyrir árás á erlendan þjóðhöfðingja.  Við því liggur allt að fimmtán ára fangelsi.

Blaðamaðurinn sýndi þó engin merki um iðrun þegar hann kom fyrir rétt í dag.  Hann sagði að hann hefði viljað endurreisa stolt Íraka á hvern þann hátt sem hann hefði getað án þess að beita vopnum.

Það sem hefði rekið hann til verknaðarins hefði verið sú niðurlæging sem Írak hefði mátt þola vegna hersetu Bandaríkjamanna og morðanna á saklausu fólki.

Tugir stuðningsmanna hylltu al Zeidi þegar hann kom til réttarhaldanna. Hann er dáður sem hetja um allan múslimaheiminn.

Eftir yfirheyrslur í dag var gert réttarhlé til 12 mars.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×