Lífið

Íslendingar komu blaðskellandi á danskan blaðamarkað

Höfundar bókarinnar lögðu nokkra vinnu í að kanna innbyrðis tengsl ólíkra fjárfesta að Nyhedsavisen.fréttablaðið/teitur
Höfundar bókarinnar lögðu nokkra vinnu í að kanna innbyrðis tengsl ólíkra fjárfesta að Nyhedsavisen.fréttablaðið/teitur

„Það kom okkur á óvart hversu miklar tilfinningar allir hlutaðeigandi lögðu í verkefnið. Og trúðu á það allt til enda,“ segir Morten Runge, danskur blaðamaður.

Bókin um Nyhedsavisen er að streyma glóðvolg úr prentsmiðjunni. Alt går efter planen - Sagaen om Nyhedsavisen, eða Allt samkvæmt áætlun. Fjórir fyrrum blaðamenn Nyhedsavisen skrifa bókina; Morten, Rune Skyum-Nielsen, Rasmus Karkov og Niels Kristian Holst. Að sögn Mortens ákváðu þeir að skrifa bókina 1. september, þegar ljósin voru slökkt hinsta sinni á ritstjórnarskrifstofum Nyhedsavisen. „Við lukum við hana um miðjan febrúar og hún er nú að koma úr prentsmiðjunni. Þetta er heillandi saga. Og þótt þarna sé engin sprengja, ekkert eitt sem kollvarpar hugmyndum manna um hví fór sem fór, þá er heildarmyndin afar athyglisverð. Hvernig fjárfestar komu að þessu úr öllum áttum og svo tengslin þeirra á milli. Já, við reyndum að elta peningana þótt við höfum ekki náð að fylgja þeim allt til enda,“ segir Morten gráglettinn.

Við gerð bókarinnar ræddu höfundar við milli 30 til 40 manns og suma oft. Morten segir engan hafa færst undan því, síst þegar þeir heyrðu að þessi og hinn væri til viðtals. Vildu þá koma sínum sjónarmiðum að einnig. Fyrir Íslendinga er ekki síst athyglisvert að sjá tenginguna við íslensku útrásina. Nú liggur fyrir að Danir hafa staðið í dagblaðaútgáfu ólíkt lengur en Íslendingarnir sem komu skyndilega blaðskellandi og vildu kenna Dönum hvernig á að búa til blöð. „Já, akkúrat. Við héldum að þeir kæmu með fjármagnið og módelið en við legðum til blaðamennskuna,“ segir Morten spurður hvort þarna megi ekki greina eitthvað þar sem jaðrar við mikilmennskubrjálæði, eða hybris.

Í bókinni eru kaflar um ástandið á Íslandi. Sagan hefst þar. Þegar Jón Ásgeir Jóhannesson og Gunnar Smári Egilsson fóru að tala saman og horfðu til Köben. „Okkur þykir athyglisvert að fjölmargir vöruðu við hinu íslenska efnahagsundri. Að þetta væri bóla. En viðvaranirnar komu einkum frá Danmörku og því vildu menn skella skollaeyrum við,“ segir Morten - spenntur að vita hverjar viðtökurnar verða á Íslandi. jakob@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.