Innlent

Kanna jarðhita á grískum eyjum

Mannvit kannar nú jarðhita á grískum eyjum. NordicPhoto/Getty
Mannvit kannar nú jarðhita á grískum eyjum. NordicPhoto/Getty
Verkfræðistofan Mannvit vinnur nú að kortlagningu jarðhitasvæðis á grísku eyjunum Milos og Komolos fyrir gríska náma­fyrirtækið S&B minerals. Verkefnið hefur falist í hagkvæmniathugun og viðnámsmælingum.

Fyrirliggjandi er viljayfirlýsing um frekari þátttöku Mannvits, verði farið út í virkjun á svæðinu, að sögn Sigurðar Lárusar Hólm, sviðsstjóra jarðhitarannsókna hjá Mannviti.

Þrír starfsmenn Mannvits voru í Grikklandi við mælingarnar ásamt starfsmönnum bandarísks undirverktaka. Ísor kom einnig að verkefninu.

Sigurður Lárus segir að fyrir um 30 árum hafi staðið til að nýta jarðhitasvæðið á Milos en vegna andstöðu íbúa var hætt við áformin eftir að ein til tvær holur höfðu verið boraðar nærri byggð.

S&B Minerals, sem er stórt námafyrirtæki, ákvað nýlega að hasla sér völl í vistvænni orkuframleiðslu og samdi upphaflega við Mannvit um að gera hagkvæmniathugun og í framhaldinu var ákveðið að gera þessar mælingar á jarðhitageyminum og komast að því hvort hægt er að bora eftir jarðhita fjær byggð en áður var fyrirhugað.

Mannvit er umsvifamikið í jarðhitarannsóknum erlendis um þessar mundir. Auk verkefnisins í Grikklandi kannar fyrirtækið hagkvæmni þess að endurbyggja hitaveitu í Oradea í Rúmeníu og kortleggur stóran jarðhitageymi sem þar er að finna. - pg



Fleiri fréttir

Sjá meira


×