Erlent

Forsetinn heitir umbótum

Stuðningsmenn fagna Hamid Karzai á sér ófáa stuðningsmenn sem fögnuðu því að hann yrði forseti áfram.
fréttablaðið/AP
Stuðningsmenn fagna Hamid Karzai á sér ófáa stuðningsmenn sem fögnuðu því að hann yrði forseti áfram. fréttablaðið/AP

Hamid Karzai, forseti Afganistans, lofar umbótum á nýju kjörtímabili, en sagði þó ekkert um það í hverju þær umbætur yrðu fólgnar.

Hætt var við að efna til annarrar umferðar forsetakosninga eftir að mótframbjóðandinn, Abdullah Abdullah, dró framboð sitt til baka. Hann sagðist gera það vegna þess að seinni umferð kosninganna yrði hvorki frjáls né sanngjörn.

Úrvinnsla talna úr fyrri umferðinni dróst vikum saman vegna kosningasvindls.

Karzai ítrekaði í gær boð sitt til pólitískra andstæðinga sinna um aðild að nýrri ríkisstjórn, en Abdullah, sem er fyrrverandi utanríkisráðherra í ríkisstjórn Karzais, hefur sagt að hann ætli ekki að þiggja ráðherraembætti heldur berjast fyrir umbótum í stjórnarandstöðu.

Samstarfsmenn bæði Karzais og Abdullahs sögðust hins vegar hafa unnið undanfarna daga að samkomulagi um að baráttumál Abdullahs fengju hljómgrunn í nýju stjórninni.

Karzai sagðist einnig vilja fá talibana til liðs við stjórnina, svo fremi sem þeir væru reiðubúnir til að starfa með henni.

„Við viljum að bræður okkar í talibanahreyfingunni og aðrir komi aftur og gangi til liðs við okkur,“ sagði Karzai í gær.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×