Erlent

Fjórða hver lifrarígræðsla vegna ofdrykkju

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Lifrarígræðsla undirbúin á sjúkrahúsi í Ástralíu.
Lifrarígræðsla undirbúin á sjúkrahúsi í Ástralíu. MYND/Austin.org.au

Ein af hverjum fjórum lifrum, sem græddar eru í fólk í Bretlandi, er til bjargar þeim sem eyðilagt hafa í sér lifrina með drykkju.

Þetta sýna opinberar tölur í Bretlandi svart á hvítu. Tímabilið frá marslokum 2007 til jafnlengdar 2008 fór 151 lifur af alls 623 ígræddum í sjúklinga sem höfðu átt við drykkjutengdar lifrarskemmdir að stríða. Síðasta áratuginn hefur slíkum tilfellum fjölgað um meira en 60 prósent og nú er svo komið að bresku læknasamtökunum stendur hreint ekki á sama um þróunina.

Dr. Tony Calland, formaður siðanefndar samtakanna, minnir í viðtali við Observer á þá staðreynd að breskir skurðlæknar hafi fullan rétt til að binda lifrarígræðslu þeim skilyrðum að áfengisdrykkju verði hætt alveg eða henni stillt verulega í hóf með nýju lifrina innanborðs. Hann segir það vera læknisfræðilega ákvörðun mun frekar en siðferðilega að neita sjúklingi um aðgerð liggi ekki fyrir hreint og klárt loforð af hans hálfu um að snúa baki við Bakkusi gamla.

Sennilega eru þetta orð í tíma töluð þar sem tíðni dauðsfalla af völdum skorpulifrar í Bretlandi er nú komin yfir Evrópumeðaltalið. Í nýlegri könnun læknasamtakanna voru 94 prósent breskra lækna á því að ekki ætti að heimila lifrarígræðslu nema sjúklingurinn lofaði að láta af drykkju.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×