Erlent

Kjarnorkukafbátar í árekstri djúpt í Atlantshafi

Tveir kjarnorkukafbátar frá Bretlandi og Frakklandi skemmdust mikið þegar þeir lentu í hörðum árekstri djúpt í Atlantshafinu fyrr í þessum mánuði. Flotastjórnir landanna reyndu að leyna atburðinum.

Það voru samtals 160 kjarnorkusprengjur um borð í kafbátunum Vanguard og Le Triomphant þegar þeir lentu í árekstri á Atlantshafi í byrjun þessa mánaðar. Þar fyrir utan eru báðir kafbátarnir kjarnorkuknúnir. Flotastjórnir Bretlands og Frakklands neita að segja nokkuð um áreksturinn, en fullyrða þó að ekki hafi orðið neitt kjarnorkuslys og enginn maður meiðst.

Breska blaðið Daily Telegraph segir að bátarnir hafi skreiðst til hafnar eftir áreksturinn, en gengið fyrir eigin vélarafli. Blaðið segir að báðir bátarnir séu mikið skemmdir. Báðir þessir kafbátar eru búnir fullkomnustu bergmálsleitar- og hlustunartækjum sem völ er á. Þeir eiga að geta heyrt hvali prumpa í margra mílna fjarlægð.

Bátarnir eru hinsvegar einnig mjög hljóðlátir. Ekki er óalgengt að kafbátar vinaþjóða heyi einvígi í undirdjúpunum til þess að halda sér í æfingu. Slíkar æfingar standa jafnvel í nokkra daga og það er gríðarlega mikilvægt fyrir áhafnir bátanna að vinna.

Það er því stundum farið út á ystu nöf, þótt auðvitað sé það ekki ætlunin að sigla á keppinautinn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×