Lífið

Ungur leikstjóri til Cannes

í Ferðahug Arnar Már Brynjarsson og Gunnar Anton Guðmundsson eru á leiðinni til Cannes og eru bæði spenntir og kvíðnir.Fréttablaðið/Stefán
í Ferðahug Arnar Már Brynjarsson og Gunnar Anton Guðmundsson eru á leiðinni til Cannes og eru bæði spenntir og kvíðnir.Fréttablaðið/Stefán

„Já, ég er bæði spenntur og kvíðinn," segir leikstjórinn Arnar Már Brynjarsson en hann er á leiðinni til Cannes þann 14.maí ásamt félögum sínum, þeim Hlyni Björnssyni og Gunnari Anton Guðmundssyni. Þeir ásamt fjórða manninum, Hirti A. Guðmundssyni, gerðu stuttmyndina HUX sem vann Stuttmyndadaga Reykjavíkur í fyrra. HUX tekur þátt í svokölluðu Short Film Corner sem haldin er í tengslum við hina eiginlegu kvikmyndahátíð en myndin segir frá tvítugum dreng sem reynir að bjarga móðir sinni undan klóm krabbameins.

Undirbúningur fyrir stuttmyndadaga Reykjavíkur í ár er nú í fullum gangi, Silja Hauksdóttir og Ólafur H. Torfason auk Sigmundar Dúa Mássonar verða í dómnefnd en hátíðin verður sett þann 28.maí. Arnar segir þá félaga ekki ætla að endurtaka leikinn í ár. "Nei,við höfðum hreinlega ekki tíma en stefnum á að vera með mynd á næsta ári."

Arnar segir það hálf ógnvekjandi að vera fara á þessa frægustu kvikmyndahátíð heims sem haldin er við sólríkar strendur Miðjarðarhafsins. „Ég á reyndar eftir að útvega mér smóking en það bjargast alveg örugglega," segir Arnar og viðurkennir að þegar þeir gerðu myndina leiddu þeir aldrei hugann að því að hún gæti verið farseðill til Frakklands. Arnar, sem er 22 ára, hefur verið með ólæknandi kvikmyndagerðardellu í ansi langan tíma. "Hún kom þegar ég fékk myndbandsupptökuvél í fermingargjöf. Hún hefur eiginlega ekki farið síðan," segir Arnar en hann rekur ásamt félögum sínum vélaleigu fyrir kvikmyndagerðarfólk undir nafninu Royal & Zlátur. - fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.