Innlent

Ekki almenn andstaða innan AGS

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, segist ekki hafa upplifað almenna andstöðu meðal annarra þjóða en Hollendinga og Breta við að endurskoðun á efnahagsáætlun Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum verði tekin fyrir í stjórn sjóðsins.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, spurði Jóhönnu út í málið við upphaf þingfundar í dag. Vitnaði Bjarna til Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra, sem sagði nýverið að stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins vilji taka taka efnahagsáætlunin fyrir. Það væri hins vegar upplifun sín á ársfundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Tyrklandi um síðustu mánaðarmót að stjórn sjóðsins óttaðist að ríki innan Evrópusambandsins gætu lagst gegn því að endurskoðunin yrði tekin fyrir en þá þyrfti að greiða atkvæði um málið í stjórninni.

Bjarni sagði að þetta væru mikil tíðindi. Hann hafi ekki órað fyrir því að það væri almenn andstaða fyrir endurskoðuninni meðal Evrópusambandsríkjanna. Hann vildi vita hvort þetta væri misskilningur og hvað ríkisstjórnin hefði gert til að bregðast við þessari andstöðu.

Jóhanna sagðist vera afskaplega óánægð með hvernig Icesave málinu og endurskoðun efnahagsáætlunarinnar hafi verið tengt saman. Andstaða Hollendinga og Breta hefði komið fram en hún hefði ekki upplifað að það væri almenn andstaða annarra ríkja við því að efnahagsáætlunin yrði afgreidd í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hún sagðist eiga von á að hreyfing kæmist á málefni Íslands hjá sjóðnum fáist niðurstaða í Icesave málið á allra næstu dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×