Erlent

Bannar útgáfu Salinger-stælingar tímabundið

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
J.D. Salinger.
J.D. Salinger. MYND/Planetvideo.com.au

Bandarískur dómstóll hefur lagt tímabundið lögbann við útgáfu bókar sem ætlað er að vera framhald skáldsögunnar The Catcher in the Rye eftir J.D. Salinger.

Vísir greindi frá því í byrjun júní að bandaríski rithöfundurinn Jerome David Salinger hefði stefnt öðrum höfundi, J.D. California, sem í raun er sænski rithöfundurinn Fredrik Colting, fyrir að skrifa framhald sögu Salingers þar sem notast er að einhverju leyti við þær sögupersónur sem Salinger skapaði á sínum tíma árið 1951 en þá kom upprunalega bókin út.

Dómari úrskurðaði í gær að nýju bókina mætti ekki gefa út næstu tíu daga en þann tíma mun dómarinn nota til að ákveða hvort efni séu til þess að banna útgáfu bókarinnar algjörlega í Bandaríkjunum en það er það sem Salinger fer fram á. Hann er orðinn níræður og hefur haldið sig algjörlega utan sviðsljóssins áratugum saman.

Lögmaður sænska rithöfundarins telur ekkert athugavert við að nýja bókin komi út og segir að þótt aðalsöguhetja The Catcher in the Rye, Holden Caulfield, hafi vissulega öðlast frægð og ódauðleika tákni það ekki að hann teljist varinn af höfundarrétti þótt skáldverkið sjálft sé það. Salinger kom ekki fyrir réttinn sjálfur en hann á við veikindi að stríða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×