Það mátti sjá bros á andlitum margra ÍR-inga í Laugardalnum í dag þegar ÍR tryggði sér bikarmeistaratitilinn í fyrsta sinn frá árinu 1989. ÍR-liðið endaði um leið fimmtán ára sigurgöngu FH-inga sem höfðu unnið bikarmeistaratitilinn samfellt frá og með árinu 1994. FH-ingar urðu í 2. sæti nú en unnu þó karlakeppnina.
ÍR fékk samtals 180 stig eða 17 stigum meira en FH-ingar sem komu eins og áður sagði næstir. Lið Ármanns og Fjölnis varð síðan í þriðja sætinu með 117 stig eftir harða baráttu við Breiðablik sem fékk 115,5 stig í 4. sætinu. Norðurland varð í 5. sæti og HSK rak lestina.
ÍR-ingar unnu einnig kvennakeppnina, þar sem FH varð í 2. sæti og Ármann/Fjölnir í því þriðja. FH vann karlakeppnina en ÍR varð þar í 2. sæti og Breiðablik í því þriðja.