Innlent

Kampavínsmálið: Mál eins manns breytir engu um styrki til KSÍ

Geir Þorsteinsson er formaður KSÍ.
Geir Þorsteinsson er formaður KSÍ.

Forsvarsmaður eins stærsta styrktaraðila KSÍ segir að mál eins manns breyti ekki afstöðu fyrirtækisins til sambandsins. Styrktarsamningurinn sé fyrir íslensk knattspyrnu, íslensk ungmenni og íslensku landsliðin. Menntamálaráðherra telur þetta mál ekki vera íþróttahreyfingunni til framdráttar.

Mál Pálma Jónssonar, fjármálastjóra KSÍ, hefur verið tilefni gagnrýni á Knattspyrnusambandið, en mörgum finnst óeðlilegt að fjármálastjórinn hafi yfirleitt komið sér í þær aðstæður að kort í eigu sambandsins var misnotað af nektarbúllu.

Sem kunnugt er voru 67 þúsund svissneskir frankar teknir út af kreditkorti í eigu KSÍ á næturklúbbu í Zurich sem téður Pálmi hafði heimsótt árið 2005. Nú hefur Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, óskað formlega eftir skýringum knattspyrnusambandsins á málinu og var skriflegt erindi þess efnis sent í gær.

Stærstu styrktaraðilar KSÍ eru Vífilfell, Icelandair, Íslensk getspá, Landsbankinn, Vodafone, VÍS og Mastercard. Birkir Hólm Guðnason, forstjóri Icelandair, sagði í samtali við fréttastofu að mál Pálma kæmi ekki til með að hafa áhrif á afstöðu Icelandair til KSÍ. Fyrirtækið liti svo á að styrktarsamningurinn væri fyrir íslenska knattspyrnu, íslensk ungmenni og íslensku landsliðin. Mál eins manns myndi ekki hafa áhrif á þann stuðning.

Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra sem einnig er ráðherra íþróttamála sagði eftir ríkisstjórnarfund í morgun að hún biði skýringa að loknum stjórnarfundi hjá KSÍ. Hún teldi þetta mál ekki vera íþróttahreyfingunni til framdráttar. Það skipti miklu máli hvernig fulltrúar íþróttahreyfingarinnar höguðu sér og þessi hegðun væri ekki til fyirirmyndar. Menntamálaráðherra telur fulla þörf á að íþróttahreyfingin setji sér reglur um framgöngu síns fólk þegar það sé á ferðalögum erlendis, alveg eins og rætt hafi verið að setja í stjórnsýslunni.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.