Innlent

Hvernig fóru átta milljónir af korti KSÍ á nektarstað í Sviss?

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ.
Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ.
„Við viljum fá skýringar á því hvernig það atvikaðist að átta milljónir króna voru dregnar af greiðslukorti Knattspyrnusambandsins á nektardansstað í Sviss,“ segir Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra.

Íþróttasambandi Íslands (ÍSÍ) og Knattspyrnusambandi Íslands (KSÍ) var í gær sent bréf frá menntamálaráðuneytinu vegna máls fjármálastjóra KSÍ sem fyrir fimm árum heimsótti nektardansstað í Zürich og fékk greiðslukortareikning upp á margar milljónir króna á sitt eigið greiðslukort og kort KSÍ. Fjármálastjórinn höfðaði mál ytra vegna þessarar uppá­komu og fékk nokkurn hluta fjárins endur­greiddan en sat þó engu síður uppi með milljóna reikning.

Ef marka má Geir Þorsteinsson, formann KSÍ, var fjármálastjórinn fórnarlamb svikahrappa. Menntamálaráðherra segist sem yfirmaður íþróttamála í landinu vilja nánari skýringar.

„Við óskum eftir skýringum í ljósi þess að þetta eru samtök sem við erum að styrkja með opinberu fé og hafa mikið uppeldis- og fyrirmyndargildi,“ segir Katrín, sem telur málið ekki koma vel út fyrir KSÍ.

„Það er ákveðinn munur á því sem fólk gerir sem prívatpersónur eða á vegum samtaka sem eru í æskulýðsstarfi og snerta þannig mörg heimili og fjölskyldur. Það hlýtur að vera kappsmál KSÍ að starf þess sé allt til fyrirmyndar.“

Geir Þorsteinsson sagði í Kastljósi í gær að málið hefði skaðað KSÍ og að stjórn sambandsins myndi ræða það að nýju á næsta stjórnarfundi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×