Innlent

Skorar á forseta ASÍ að hætta

Ragnar Þór Ingólfsson Segir ASÍ hafa haft frumkvæði að frestun launahækkana og krefst tafarlausrar afsagnar forseta sambandsins.
Ragnar Þór Ingólfsson Segir ASÍ hafa haft frumkvæði að frestun launahækkana og krefst tafarlausrar afsagnar forseta sambandsins.
„Hér með lýsi ég yfir vantrausti á Gylfa Arnbjörnsson og skora á hann að segja af sér án tafar,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, stjórnarmaður í Verslunarmanna­félagi Reykjavíkur, á bloggi sínu um aðkomu forseta Alþýðusambands Íslands að kjaraviðræðum.

Ragnar telur minnisblað sem birt er á netsíðunni wikileaks.org sýna að ASÍ hafi haft frumkvæði að því í febrúar á þessu ári að umsömdum launahækkunum yrði frestað. Í minnisblaðinu er getið um að Samtök atvinnulífsins hafi óskað eftir því við ASÍ að fyrirtæki fengju möguleika á sveigjanleika við að efna samningana, meðal annars varðandi tímasetningu hækkana. „Þessu svaraði ASÍ með því að setja fram þá hugmynd að öllum launabreytingum 1. mars yrði frestað til 1. júlí,“ vitnar Ragnar í minnisblað ASÍ.

„Þetta staðfestir að hin gríðarlega spenna sem var á milli SA og ASÍ var ekkert nema leikrit þar sem félagarnir Gylfi og Vilhjálmur voru í aðalhlutverkum. Menn stóðu með kaffibolla í hönd og þrömmuðu framhjá upplýstum gluggum, svo sjónvarpsvélarnar myndu örugglega ná að mynda skrípaleikinn,“ skrifar Ragnar. „Það eitt að ASÍ hafi svo átt frumkvæðið að frestun launahækkana er í sjálfu sér kistulagning Alþýðusambandsins.“

Ekki náðist í Gylfa Arnbjörnsson í gærkvöld til að fá viðhorf hans til ásakana Ragnars.- gar



Fleiri fréttir

Sjá meira


×