Lífið

Sonur Geirs Jóns í löggunni

Dúni ætlar að gera allt sem í hans valdi stendur svo börn hans fari ekki í lögregluna.fréttablaðið/valli
Dúni ætlar að gera allt sem í hans valdi stendur svo börn hans fari ekki í lögregluna.fréttablaðið/valli

„Nei, ég var ekki ánægður með að hann færi í þetta starf. Gerði allt til að koma í veg fyrir það. En þetta er honum í blóð borið og hefur gengið vel," segir Geir Jón Þórisson aðstoðaryfirlögregluþjónn.

Sonur Geirs Jóns, Þórir Rúnar Geirsson, fetaði í fótspor föður síns og er nú í mótorhjólalöggunni. Geir Jón var ekkert endilega á því að Þórir Rúnar fetaði þessa braut. „Nei, þetta er þannig starf. En ef menn finna þetta í hjarta sínu verður svo að vera. Hann gerði eins og ég - fór út á land og starfaði á Snæfellsnesi," segir Geir Jón sem sjálfur var lögregluþjónn í Eyjum. Geir Jón segist ekki hafa haft hugmynd um það þegar Þórir Jón sótti um í lögreglunni. Og hafi sannarlega ekki verið undir sínum handjaðri. „Hann nýtur engra forréttinda." Geir Jón og hans kona eiga fjögur börn en Þórir er sá eini sem er laganna vörður.

Þórir Rúnar gegnir nafninu Dúni þó foreldrarnir hafi reyndar ekki samþykkt þá nafngift. Dúni segist ekki geta sagt til um hvort faðir sinn hafi verið fyrirmyndin. „Hann hefur verið í löggunni alla mína hunds og kattartíð. Byrjaði árið 1976 og ég er fæddur 1978. Ég þekki ekkert annað. Nei, mig langaði bara að prufa, fór í sumarafleysingar árið 1999 og hef verið síðan." Dúni segir starfið eiga sér margar hliðar og engar tvær vaktir eins. „Maður getur lent í leiðindamálum og svo í að bjarga einhverjum á sömu vakt. Ég hef margoft lent í að hnoða menn og þá er eins og maður sé blessaður að fá að taka þátt í að bjarga fólki. Stundum líður manni vel og stundum illa," segir Dúni spurður hvort þetta sé ekki vanþakklátt skítadjobb.

Dúni er tveggja barna faðir og segist taka sama pól í hæðina og Geir Jón - ætli að gera allt til að koma í veg fyrir að börnin rati í lögguna. „Maður fær einhvern veginn aðra sýn á lífið. Upplifir margt sem ekki ratar í fjölmiðla; heimilisofbeldi, að hlusta á ungar stúlkur lýsa því hvernig þeim var nauðgað... og heim kominn spyr maður sig hvort maður sé ekki orðinn súr? Hvort maður sé eðlilegur? Og það er eitthvað sem ég vil ekki að mínir nánustu upplifi. Frekar að þau finni sér einhver eðlileg störf."jakob@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.