Íslenski boltinn

KR staðfestir komu Prince

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Prince Rajcomar er genginn til liðs við KR.
Prince Rajcomar er genginn til liðs við KR. Mynd/Vilhelm
KR hefur staðfest að félagið hefur gert tveggja ára samning við hollenska leikmanninn Prince Rajcomar sem var áður í herbúðum Breiðabliks.

Þetta sagði Rúnar Kristinsson, yfirmaður knattspyrnumála hjá KR, í samtali við fréttastofu. „Hann er kominn með leikheimild og skrifaði í hádeginu í dag undir tveggja ára samning. Ég á von á því að hann verði með okkur í leiknum gegn Þrótti á morgun," sagði Rúnar.

„Við erum mjög ánægðir með þetta. Við vorum búnir að skoða það lengi hverja við gætum fengið til að styrkja liðið eftir að við misstum nokkra leikmenn í haust. Þegar það kom svo í ljós að Prince var ekki búinn að finna sér nýtt félag þegar að félagaskiptaglugginn lokaði um mánaðamótin settum við okkur í samband við hann. Þetta gekk mjög fljótt fyrir sig."

Rúnar segir að Prince sé fenginn til félagsins til að fylla í skarð Guðjóns Baldvinssonar sem gekk til liðs við GAIS í Svíþjóð í haust. „Við vitum svo ekki hvort að Björgólfur spili með okkur í sumar þó svo að við vonum auðvitað að hann verði áfram."

Prince var með samning við Breiðablik til loka næsta tímabils en aðilar komust að samkomulagi að starfslokum í síðasta mánuði. Prince var með samning við Breiðablik í evrum en Rúnar segir að KR fari mjög varlega í öllum sínum fjármálum.

„Við gerum eingöngu samninga í íslenskum krónum. Þannig var það með Diogo í fyrra og það sama er með Prince. Hann gerir sér líka fulla grein fyrir því hvernig ástandið er. En við höfum verið að fara okkur varlega í þessum efnum og munum gera það áfram."


Tengdar fréttir

Prince Rajcomar í KR

Hollenski framherjinn Prince Rajcomar, sem verið hefur á mála hjá Breiðablik frá árinu 2007, skrifar á morgun undir tveggja ára samning við KR.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×