Innlent

Ódýrari tjöruhreinsir og rúðupiss

Eins gott að sjá almennilega út.
Eins gott að sjá almennilega út.
Það er sama hvað maður reynir, bíllinn verður drulluskítugur eins og skot í þessari tíð. Tjöruhreinsirinn er ekki gefinn, búast má við að þurfa að borga yfir þúsundkall fyrir lítrann. Bílaspekingurinn Leó M. Jónsson (leoemm.com) segir að heimalagaðan tjöruhreinsi sé hægt að búa til með steinolíu blandaðri saman við sirka fimm prósent uppþvottasápu. Á stærri bensínstöðvum fæst steinolía af dælu á rúmlega hundrað kall lítrinn svo þetta er umtalsverður sparnaður.

Annað sem maður eyðir mikið í núna er rúðupiss. Sjálfur hef ég ekki undan við að láta fylla á tankinn. Af bensínstöðvunum er Egó með ódýrasta rúðuvökvann. Maður dælir honum á í sjálfsala á 130 krónur lítrann. Hjá Skeljungi kostar vökvinn 170 krónur lítrinn, en N1 og Olís eru með lítrann á 215 og 216 krónur. Euro­pris selur hins vegar fjögurra lítra brúsa af vökva sem þolir 12 gráðu frost á 449 krónur og Höfðabílar, Fosshálsi, eru með þriggja lítra brúsa af rúðupissi sem þolir 20 gráðu frost á 450 kr.

Þá þarf rúðuþurrkan auðvitað að vera hrein í svona slabbtíð. Best er að taka skítinn af með ísvara eða olíuhreinsi. Á flestum bensínstöðvum er brúsi úti við fyrir kúnnana og tvistur eða hreinsipappír.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×