Innlent

Sjálfstæðisflokkur var oftast í fréttum

Svanborg Sigmarsdóttir skrifar
Fréttastofa Ríkisútvarpsins. Hlutfallslega voru flestu ljósvakafréttirnar á síðasta ári fluttar á samtengdum rásum Rásar 1 og 2.
Fréttastofa Ríkisútvarpsins. Hlutfallslega voru flestu ljósvakafréttirnar á síðasta ári fluttar á samtengdum rásum Rásar 1 og 2. Vísir/Anton
Sjálfstæðisflokkurinn var oftast tilgreindur í fréttum á síðasta ári, eða 12.799 sinnum. Þetta kemur fram í niðurstöðum Creditinfo - Fjölmiðlavaktinni á greiningu á 118.036 fréttum síðasta árs. Samfylking kemur þar á eftir og var nefnd nefnd 9.740 sinnum í vöktuðum fréttatímum eða í fréttagreinum dagblaðanna. Reykjavíkurborg var í þriðja sæti og tilgreind 7.242 sinnum.

Capacent Gallup gerði könnun fyrir Fjölmiðlavaktina, þar sem 30,6 prósent töldu að Baugur hefði verið það fyrirtæki eða aðili sem nefnt var oftast í fjölmiðlum á síðasta ári. Baugur var hins vegar í 28. sæti yfir þá aðila sem oftast voru nefndir. Þá töldu 16,7 prósent að Seðlabankinn hefði oftast verið nefndur, en Seðlabankinn var í fjórða sæti yfir þá sem oftast voru nefndir.

Geir H. Haarde var oftast viðmælandi í fréttum á síðasta ári, eða 685 sinnum. Hann var sérstaklega oft viðmælandi síðustu fjóra mánuði ársins. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var viðmælandi 372 sinnum og Steingrímur J. Sigfússon var viðmælandi 249 sinnum.

Af þeim nítján einstaklingum sem oftast voru viðmælendur voru sautján stjórnmálamenn. Aðrir voru Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sem var í tíunda sæti og Davíð Oddsson seðlabankastjóri sem var í 14. sæti.

Viðmælendur í fréttum ljósvakanna eru kyngreindir og kemur þá í ljós að konur eru oftast viðmælendur hjá Sjónvarpinu, eða í 24,5 prósent tilfella. 21,8 prósent viðmælenda hjá Rás 1 og 2 eru konur og 20,0 prósent viðmælenda hjá Stöð 2 - Bylgjunni.

Mikill meirihluti, eða 83 prósent, frétta síðasta árs birtust í dagblöðum. Af dagblöðunum birti Morgunblaðið flestar innlendar fréttir, eða 36 prósent þeirra. Fréttablaðið birti næstflestar, eða 28 prósent þeirra.

Flestar ljósvakafréttir voru hins vegar á samtengdum rásum Rásar 1 og 2 í Ríkisútvarpinu, tæplega 41 prósent innlendra frétta sem fluttar eru í ljósvakamiðlum. Rúm 38 prósent frétta eru á Stöð 2 og Bylgjunni en rúmlega 21 prósent frétta ljósvakamiðlanna eru fluttar í Sjónvarpinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×