Erlent

Enginn krepputónn í Óskarnum

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Þrátt fyrir að menn hafi fundið rækilega fyrir efnahagsástandinu á Wall Street og í atvinnulífinu fær það ekki að teygja anga sína inn í Óskarsverðlaunahátíðina um helgina.

Stærsta stund bandaríska kvikmyndaiðnaðarins verður ósnortin af atvinnuleysi og efnahagsþrengingum. Þetta fullyrða að minnsta kosti aðstandendur hátíðarinnar sem fram fer á sunnudaginn þegar ameríska kvikmyndaakademían velur þau stykki sem henni þykja hafa skarað fram úr síðasta árið, ásamt farsælustu leikurum, leikkonum og leikstjórum.

Hönnuðir fata og skartgripa hafa átt í nógu að snúast síðustu vikurnar því þegar stytturnar gylltu eru afhentar dugir ekkert annað en að skarta sínu allra fínasta. Demantar munu að sögn aðstandenda gegna sérstaklega veigamiklu hlutverki í ár og hafa skartgripaframleiðendur hamast við að skera þá til og koma fyrir í eyrnalokkum, hálsmenum og fatnaði.

Þá hafa skóframleiðendur einnig mátt vera á tánum yfir óskum kröfuharðra leikara enda gildir sú regla þegar Óskarsverðlaunastyttan er afhent að vera helst í einhverju sem aldrei hefur sést áður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×