Erlent

Vinur Jakobs Frímanns fær miklar skaðabætur

Óli Tynes skrifar
Barry Georg.
Barry Georg.

Barry Georg sem var sakaður um að myrða bresku sjónvarpskonuna  Jill Dando hefur samið um umtalsverðar skaðabætur vegna skrifa breskra slúðurblaða um málið.

Dando var myrt með einu byssuskoti í höfuðið fyrir framan heimili sitt árið 1999. Barry Georg var sakfelldur fyrir morðið og dæmdur í fangelsi árið 2001.

Honum tókst að fá málið tekið upp aftur og var sýknaður og sleppt úr fangelsi í ágúst á síðasta ári.

Slúðurblöðin Sun og News of The World fóru hamförum í málinu og hafa nú fallist á að greiða George það sem Sky fréttastofan kallar umtalsverðar skaðabætur.

Barry George var ágætis kunningi tónlistarmannsins Jakobs Frímanns Magnússonar og fleiri Íslendinga sem bjuggu í Lundúnum á þessum tíma. Þeir hittu hann tíðum á kaffihúsi sem þeir sóttu.

Jakob Frímann var frá upphafi sannfærður um að vinur hans hefði ekki myrt sjónvarpskonuna. Hann sagði í fleiri en einu viðtali við fréttastofu Stöðvar 2 að Barry væri sakleysingi sem aldrei dytti í hug að vinna nokkrum manni mein.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×