Erlent

Moore telur auðvaldsskipulagið illt

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Michael Moore.
Michael Moore.

Auðvaldsskipulagið er af hinu illa. Þetta er niðurstaða nýrrar heimildamyndar Michaels Moore.

Kvikmynd Moore, Auðvaldsskipulagið: Ástarsaga, eða Capitalism: A Love Story, var frumsýnd á kvikmyndahátíð í Feneyjum í gær. Moore fer ekki í neinar grafgötur með það í myndinni að hann telur auðvaldsskipulagið beinlínis af hinu illa. Það steypi milljónum í fen fátæktar og þjóni nánast eingöngu hagsmunum hinna efnameiri.

Í myndinni fer Moore ofan í saumana á starfsemi stórra banka og vogunarsjóða sem hann segir höndla með fjármuni viðskiptavina sinna á svo snúinn og flókinn hátt að fáir eða engir skilji ferlið. Einnig gagnrýnir Moore hið nána samband á milli banka, stjórnmálamanna og starfsmanna bandaríska fjármálaráðuneytisins og heldur því fram að flestar reglur á þeim vettvangi miði að því að verðbréfamiðlarar á Wall Street fitni eins og púkinn á fjósbitanum á meðan atvinnuleysi og gaddfreðinn fasteignamarkaður blasi við öðrum.

Moore ávarpaði kvikmyndahúsagesti við frumsýninguna og sagði meðal annars að fjárhættuspil væru í mörgum ríkjum Bandaríkjanna bönnuð með lögum en þrátt fyrir það væri starfsemin á Wall Street eitt allsherjarfjárhættuspil þar sem peningar annarra væru að veði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×