Innlent

Gagnaver á Suðurnesjum þokast í rétta átt

Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra.
Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra. Mynd/Anton Brink

Í dag voru í iðnaðarráðuneytinu árituð drög að fjárfestingarsamningi við Verne Holding ehf. um byggingu og rekstur gagnavers í Reykjanesbæ.

Framkvæmdir við fimmtíu milljarða króna rafrænt gagnaver á Ásbrú, gamla varnarsvæðisins í Keflavík hafa verið í fullum gangi síðan í maí á þessu ári. Í júní störfuðu t.a.m. 120 menn frá íslenskum Aðalverktökum við byggingu versins.

Nýverið greindu forsvarsmenn fyrirtækisins frá því að það hafi neyðst til að draga saman seglin þar sem það hefur dregist að ljúka við gerð fjárfestingarsamnings við stjórnvöld. Talið var að fjöldi manns gætu misst vinnuna vegna þessa.

Samningurinn kveður á um tímabundnar ívilnanir vegna fjárfestingarinnar hér á landi, að fram kemur í tilkynningu frá iðnaðarráðuneytinu. Byggt var á fyrirmyndum í þeim fjárfestingarsamningum sem gerðir hafa verið vegna stóriðju á undanförnum árum.

Á næstunni mun iðnaðarráðherra leggja fyrir ríkisstjórn frumvarp til laga um heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ. Í frumvarpinu er iðnaðarráðherra veitt heimild til að gera fjárfestingarsamning fyrir hönd ríkisstjórnarinnar við Verne Holding ehf. um byggingu og rekstur gagnaversins svo staðfesta megi samninginn.








Tengdar fréttir

Hundrað manns gætu misst vinnuna á Suðurnesjum

Hundrað manns munu missa vinnuna við byggingu gagnavers á Suðurnesjum ef ekki tekst að ljúka samningum við ríkið um meðal annars skattamál fyrir næstu mánaðarmót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×