Innlent

Bílastæðavandanum var ekki mætt

Við Iðnskólann sprengja bílakjallara. Fréttablaðið/GVA
Við Iðnskólann sprengja bílakjallara. Fréttablaðið/GVA
Deiliskipulag um miklar viðbyggingar við Iðnskólann í Reykjavík hefur verið fellt úr gildi af úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála.

Auka átti byggingarmagnið á Skólavörðuholti um rúmlega sjö þúsund fermetra. „Þrátt fyrir það er í engu gerð grein fyrir því hvernig leyst skuli úr bílastæðaþörf er skapast vegna þessarar aukningar. Í hinni kynntu tillögu að breyttu deiliskipulagi svæðisins var gert ráð fyrir að gerður yrði bílakjallari á Skólavörðuholti í þessu augnamiði en við samþykkt tillögunnar var horfið frá þeim áformum án þess að grein væri gerð fyrir því í tillögunni með hvaða öðrum hætti bílastæðakröfu yrði mætt,“ segir í niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar.

Reykjavíkurborg fyrir sitt leyti sagði nýrri viðbyggingu við Iðnskólann að mestu ætlað að taka við starfsemi og nemendum sem væru í Vörðuskólanum. Því væri ekki um einfalda fjölgun nemenda að ræða. Ekki væri talið að breytingarnar myndu valda auknu álagi á bílastæði.

Íbúi við Bergþórugötu sem kærði deiliskipulagið taldi hins vegar að það væri andstætt reglum að gera ekki ráð fyrir nýjum bílastæðum eins og niðurstaða borgaryfirvalda hafi orðið með því að hætta við að „sprengja Skólavörðuholtið“ til að koma þar fyrir bílakjallara vegna andstöðu nágranna Iðnskólans við þá framkvæmd. Meðal annars óttaðist sóknarnefnd Hallgrímskirkju skemmdir á byggingunni vegna sprenginganna. - gar



Fleiri fréttir

Sjá meira


×