Lífið

Svíar kaupa goðaheim Friðriks

Friðrik Erlingsson. Sænskt bókaforlag gefur út bók hans. fréttablaðið/arnþór
Friðrik Erlingsson. Sænskt bókaforlag gefur út bók hans. fréttablaðið/arnþór

„Já, Svíar ákalla þrumuguðinn Þór. Samningurinn einn og sér bjargar ekki gjaldeyrismálum þjóðarinnar en þetta brýtur ísinn erlendis og gefur byr í seglin, bæði hvað varðar frekari samninga erlendis og eins dreifingu myndarinnar," segir Pétur Már Ólafsson útgefandi.

Bókaforlagið Veröld hefur gengið frá samningum við Natur och Kultur í Svíþjóð um útgáfu á bókinni Þór - í Heljargreipum eftir Friðrik Erlingsson. Að sögn Péturs er Natur och kultur fornfrægt forlag en meðal rithöfunda á þeirra snærum eru Philip Pullman, Joyce Carol Oates, Norman Mailer og Einar Már Guðmundsson. „Sagan Þór - í Heljargreipum var unnin í samvinnu við tölvuteiknimyndafyrirtækið CAOZ en kvikmynd byggð á sögunni er nú í bígerð í leikstjórn Óskars Jónassonar. Áætlað er að framleiðsla myndarinnar kosti á annan milljarð króna," segir Pétur Már.

Bók Friðriks kom út hjá Veröld fyrir síðustu jól og fékk lofsamlega dóma. En sagan segir af Þór sem er ungur og ofursterkur járnsmiður í Mannheimum. Þór veit ekki að hann er sonur Óðins sem er æðstur Ása en þegar Þór fær í hendur Mjölni, öflugasta vopn veraldar, hefst æsileg atburðarás. Bókin seldist í nálega þrjú þúsund eintökum hér heima og Pétur Már bendir á að Benjamín dúfa eftir Friðrik hafi verið seld út um allar jarðir á sínum tíma. „Til Finnlands, Danmerkur, Litháen, Ítalíu, Svíþjóðar og víðar. Nú síðast kom hún út í Bretlandi, fjórtán árum eftir að hann hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin fyrir þá merku bók."- jbg








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.