Erlent

Árás vekur óhug Breta

„Hvers konar stríð er þetta?" spurði breska dagblaðið Daily Mail í fyrirsögn á forsíðu í gær, daginn eftir að fimm breskir hermenn voru skotnir til bana í Afganistan. Árásarmennirnir voru afganskir lögreglumenn, sem tóku upp vopn sín þegar Bretarnir voru að hita sér te.

Önnur blaðafyrirsögn í gær hljóðaði: „Blóðug svik", og var á forsíðu dagblaðsins Times.

Árásin hefur vakið hörð viðbrögð í Bretlandi, og vilja margir að Bretar hætti þegar í stað allri þátttöku í hernaði í Afganistan. Hvernig eiga breskir hermenn að geta barist í Afganistan ef þeir geta ekki treyst afgönskum félögum sínum? spyrja gagnrýnendur.

Spurningar hafa vaknað um hvort fjölþjóðaherlið Bandaríkjanna og NATO hafi hraðað um of þjálfun afganskra lögreglumanna, sem hafi orðið til þess að þeim sé ekki treystandi.

Frá skrifstofu Gordons Brown forsætisráðherra bárust þau svör að breskan almenning þurfi að upplýsa betur um markmið og áherslur aðgerðanna í Afganistan.

Bæði ríkisstjórn Verkamannaflokksins og stjórnarandstaða Íhaldsflokksins hafa verið fylgjandi veru breskra hermanna í Afganistan, en svo virðist sem einhverjir í Verkamannaflokknum séu farnir að fá bakþanka, þar á meðal Kim Howells, fyrr­verandi aðstoðar­ráðherra í breska utanríkis­ráðuneytinu, sem hvetur til þess að breskir hermenn verði kallaðir heim frá Afganistan í áföngum, þvert ofan í afstöðu Gordons Brown forsætisráðherra.

Brown heldur til Afganistans í dag og ætlar að flytja þar ræðu, en ekki er vitað hvert efni hennar verður.

Egon Ramms, yfirmaður í höfuð­stöðvum NATO í Hollandi, segir að tíminn vinni gegn fjölþjóðaherliðinu í Afganistan, sem á í harðri baráttu við talibana og aðra uppreisnarhópa þar.

Ramms, sem hefur yfirumsjón með aðgerðunum í Afganistan, segir verulega hættu á því að pattstaða í Afganistan geti farið að grafa undan stuðningi almennings í aðildarríkjum NATO við hernaðinn í Afganistan.

Ástandið hefur versnað þar jafnt og þétt síðustu misserin. Í gær var svo komið að meira en helmingurinn af starfsliði Sameinuðu þjóðanna í höfuðborginni Kabúl var fluttur burt tímabundið af öryggis­ástæðum.gudsteinn@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×