Lífið

Gítar KK frystur í New York

KK bíður spenntur eftir að endurheimta Martin-gítar sinn frá New York. fréttablaðið/gva
KK bíður spenntur eftir að endurheimta Martin-gítar sinn frá New York. fréttablaðið/gva

„Ég var alveg eyðilagður þegar hann brotnaði í flutningunum," segir tónlistarmaðurinn KK, sem bíður spenntur eftir að endurheimta forláta Martin-gítar sinn sem hefur undanfarna mánuði verið fastur í New York.

Gítarinn, sem er handsmíðaður af gerðinni D-35, skemmdist í flutningum síðsumars í fyrra og sendi KK hann þá út til Martin-verksmiðjunnar í New York til viðgerðar með dyggri aðstoð Tónastöðvarinnar. Vegna mikils frosts í stórborginni hafa starfsmenn verksmiðjunnar ekki þorað að senda gítarinn til Íslands og hefur hann því setið þar fastur í marga mánuði. „Þeim er svo annt um hljóðfærin að þeir senda þau ekki fyrr en sendingarleiðin er orðin örugg," segir KK og kann vel að meta þessi vönduðu vinnubrögð. Hann er engu síður orðinn óþolinmóður að fá gítarinn í hendurnar, enda hefur hann samið öll sín bestu lög á hann, þar á meðal Vegbúann.

Vegna viðgerðarinnar sá KK sig tilneyddan til að kaupa sér nýjan Martin sem hann ætlaði síðan að selja en telur nú ólíklegt að svo verði. Þar með á hann fimm Martin-gítara í glæsilegu safni sínu. „Þetta eru bestu gítarar í heimi," segir hann og nefnir Johnny Cash, Bob Dylan og Woody Guthrie sem dygga Martin-aðdáendur í gegnum tíðina.

KK er sérlega ánægður með liðlegheit Tónastöðvarinnar í málinu. „Þeir komu mér á framfæri því það er erfitt að fá gítara uppgerða hjá Martin. Þeir eru með góð sambönd og kannski sögðu þeir að ég væri frægur á Íslandi," segir hann og glottir. Vonast hann til að endurheimta gítarinn á næstu dögum eftir langa og erfiða bið. - fb








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.