Innlent

Krónan rúin trausti

Finnur Oddsson
Finnur Oddsson

„Með þéttingu gjaldeyrishaftanna hafa Íslendingar sjálfir viðurkennt að krónan er ekki gjaldgeng í alþjóðaviðskiptum,“ segir Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs. Hann bætir við að hagkerfinu sé í æ meiri mæli stefnt inn á braut efnahagslegrar einangrunar sem geti reynst sársaukafullt að brjótast út úr.

Viðskiptaráð sendi í gær frá sér harðorða skoðun þar sem segir að staðan í gjaldeyrismálum sé óviðunandi. Þar segir að krónan sé rúin trausti á alþjóðlegum fjármálamörkuðum eftir þrot bankanna í fyrra og með inngripi stjórnvalda á gjaldeyrismarkaði með setningu víðtækra hafta.

Höftin takmarki verulega umsvif íslenskra fyrirtækja erlendis og getu landsins til utanríkis­viðskipta. Þá sé ekki ljóst hvernig krónan verði losuð úr viðjum þeirra án þess að því fylgi verulegt gengisfall með tilheyrandi áföllum fyrir hagkerfið. Lausn á vandamálinu sé mikilvægasta viðfangsefnið í dag enda muni örlög heimila og atvinnulífs að miklu leyti ráðast af gengis­þróun næstu missera.

Viðskiptaráð telur haftastefnuna ekki duga til að koma í veg fyrir fjármagnsflótta. Máli skipti að sannfæra innlenda aðila um að betri tímar séu fram undan. Stjórnmálamenn gegni lykilhlutverki til að skapa trúverðuga og ákjósanlega framtíðarsýn í efnahags­málum.

Upptaka annarrar myntar hér á landi, í fullri sátt og samráði við alþjóðasamfélagið, geti orðið verulega til bóta fyrir innlendan efnahag, jafnt til skemmri og lengri tíma. „Í raun stendur valið ekki lengur á milli áframhaldandi sjálfstæðrar peningastefnu og upptöku annarrar myntar, heldur má færa gild rök fyrir því að valið standi einfaldlega á milli upptöku annarrar myntar eða framhalds á núverandi stöðu,” segir Viðskiptaráð.

jonab@markadurinn.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×