Innlent

Notkun nauðgunarlyfja algengri en tölur sýna

Notkun deyfandi lyfja og svonefndra nauðgunarlyfja er talin mun algengari en tölur sýna. Margir sleppa með skrekkinn áður en til ofbeldis kemur.

Um liðna helgi varð ung kona í Reykjavík fyrir því að ólyfjan var sett í drykk hennar á veitingastað. Enginn ofbeldisverknaður átti sér hins vegar stað og því var atvikið ekki tilkynnt. Verkefnisstjóri hjá neyðarmóttöku vegna nauðgunar segir að engin leið sé að vita hver margir verði fyrir slíku áfalli.

,,En það sem við teljum miðað við lýsingar þolenda sem leita til okkar að 5 til 7 mál á ári sem eru mjög líkleg. En það eru mun fleiri sem hafa grunsemdir um að þeim hafi verið byrlað en miðað við lýsingu á áfengisnotkun að það sé aðalástæðan. Þannig að við í raun og veru getum ekki sagt fyrir víst hversu margir þetta eru," segir Eyrún Jónsdóttir, verkefnisstjóri hjá neyðarmóttöku vegna nauðgunar.

Ákveðin upplifun er flestum fórnarlömbum sameiginleg. ,,Já það er þetta óöryggi, þessi tilfinning um að hafa misst stjórn á lífi sínu og týnt kafla í lífi sínu sem það mun aldrei geta endurheimt aftur," segir Eyrún.

Ýmis próf eru til, sem hægt er að kaupa í apóteki og hugsanlega geta sýnt fram á að lyf séu í blóði eða þvagi. Þó er engin vissa fyrir því að þau gefi rétta niðurstöðu, því efni eins til að mynda smjörsýra og Rohypnol hverfa mjög fljótt úr líkamanum, jafnvel eftir nokkrar klukkustundir. Fullkomnari mælingar eru gerðar á sjúkrastofnunum, en þær eru dýrar og því sjaldan ráðist í þær.

Eyrún leggur áherslu á fyrirbyggjandi þætti - svo sem að vinir og vinkonur fylgist að, ekki þiggja drykki og skilja aldrei við sig glas eða flösku - aldrei sé of varlega farið. Komi eitthvað fyrir eigi að leita aðstoðar sem allra fyrst.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×