Innlent

Mótmælt á Bessastöðum

mynd/daníel

Á fjórða tug mótmælenda eru nú fyrir utan Bessastaði þar sem ríkisráðsfundur stendur nú yfir. Lögreglumenn eru á staðnum og sjá til þess að fólkið fari ekki of nálægt húsinu en mótmælin hafa verið friðsöm fram að þessu. Mótmælendurnir bera skilti og hafa tendrað á rauðum blysum en þeir eru að mótmæla því að Ólafur Ragnar Grímsson forseti staðfesti lög um ríkisábyrgð á Icesave samningana.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sagði áður en hann fór inn á fundinn að málalokin í Icesave málinu væru mikill léttir fyrir sig en Alþingi samþykkti frumvarpið í gærkvöldi. Búist er við því að ríkisráðsfundinum ljúki klukkan ellefu en óljóst er hvort Ólafur Ragnar staðfesti lögin strax eða hvort hann taki sér tíma til umhugsunar.

Forsvarsmenn InDefence hópsins hafa óskað eftir fundi með forseta og munu þeir verða boðaðir á slíkan fund. Ekki liggur þó fyrir hvenær af fundinum getur orðið. 46 þúsund manns hafa nú skrifað undir áskorun þess efnis að Ólafur Ragnar staðfesti ekki lögin.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×