Innlent

Ítrustu varúðar gætt við brennu

Mynd/pétur A. maack

Einn forsvarsmanna brennu sem til stendur að tendra við Heimsenda í Kópavogi í kvöld segir að ítrustu varúðarráðstöfunum verði fylgt og gott betur. Hestamenn í Andvara eru sumir hverjir óánægðir með tiltækið en að þeirra sögn er brennan of nálægt hesthúsabyggðinni að Heimsenda. Skipuleggjendur hvetja brennugesti til að skilja flugelda eftir heima.

„Við höfum sótt og fengið öll tilskilin leyfi fyrir þessari brennu," segir Jón Viðar Stefánsson, einn þeirra íbúa í hverfinu sem tóku sig til og skipulögðu brennuna. „Við vorum beðnir um að vera í 100 metra fjarlægð frá hesthúsunum en við gerðum gott betur og verðum í 170 metra fjarlægð og auk þess er brennan uppi á hæð og því mun ofar en sjálf hesthúsin," segir Jón og bætir því við að ekki verði kveikt í bálkestinum verði vindátt óhagstæð.

Að sögn Jóns er um lítinn og háværan hóp að ræða sem sé óánægður með framtakið og að á meðal þeirra sem tekið hafi þátt í því að safna í brennuna séu hestamenn. Flugeldasýning sem íþróttafélagið HK ætlaði að halda á svæðinu verður hins vegar ekki og biður Jón Viðar þá sem mæta á brennuna að skilja flugeldana eftir heima. Brennan hefst klukkan hálfníu og á meðal þeirra sem troða upp verður þingmaðurinn og brekkusöngvarinn Árni Johnsen.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×