Innlent

Ólafur Ragnar leggst undir feld

Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands ætlar að taka sér umþóttunartíma til þess að fara yfir Icesave málið og hann hefur ekki gert upp hug sinn. Ríkisráðsfundi á Bessastöðum er lokið og ræddi Ólafur Ragnar stuttlega við fréttamenn að honum loknum en forsetinn fékk á fundinum lög um ríkisábyrgð á Icesave skuldbindingum til staðfestingar.

Aðspurður hve langan tíma hann ætli að taka sér í málinu sagði Ólafur það óvíst en hann sagði þó að hann ætli sér að hitta forsvarsmenn InDefence hópsins á fundi þann annan janúar næstkomandi. Þar mun forsetinn fá afhentar rúmlega 46 þúsund undirskriftir fólks sem skorað hefur á hann að synja lögunum staðfestingar. Einnig mun Ólafur hlýða á sjónarmið InDefence manna á fundinum en hópurinn hefur barist gegn Icesave samningunum eins og þeir voru samþykktir.

Steingrúmur J. Sigfússon fór fyrst út af fundi ríkisráðsins og mun hann hafa óskað sérstaklega eftir því að fá að fara fyrstur af fundi. Hann vildi ekkert tjá sig við fréttamenn að loknum fundi og vísaði á forsetann áður en hann gekk út af Bessastöðum, að því er virtist í þungum þönkum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×