Íslenski boltinn

Willum Þór: Við réðum bara illa við þá

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Willum Þór Þórsson, þjálfari Vals.
Willum Þór Þórsson, þjálfari Vals.

Willum Þór Þórsson, þjálfari Vals, var rólegur í viðtölum eftir 3-0 tap á móti Keflavík í kvöld en hann var allt annað en sáttur með spilamennsku sinna manna í Keflavík í kvöld.

„Við gefum þeim tvö mörk með vondum varnarleik og í Keflavík og á móti jafnsterku liði þá var á brattann að sækja eftir það. Þeir spiluðu mjög skynsamlega úr stöðunni, lágu til baka og beittu sínum eitruðu og hröðu framherjum í skyndisóknum. Við réðum bara illa við þá," sagði Willum.

„Mér fannst batamerki á liðinu í síðasta leik. Við erum alveg meðvitaðir um það að við höfum ekki ennþá fundið okkur almennilega. Við erum ennþá að vinna úr þessum hópi og finna liðið. Mér fannst vera vísbendingar og batamerki í síðasta leik. Mér fannst við koma vel stefndir í dag en þetta sprakk í andlitinu á okkur," sagði Willum.

Hann hrósaði Keflavíkurliðinu fyrir leikinn. „Þeir spiluðu feikilega vel. Aftasta varnarlínan var örugg sem og markmaðurinn. Þá verður þú að vera öruggur á móti og við vorum aldrei öruggir í okkar varnarleik," sagði Willum Þór og bætti við:

„Keflvíkingar verða feikiöflugir í sumar, það er alveg öruggt mál. Við verðum hinsvegar að fara að huga að okkur sjálfum," sagði Willum en Valsliðið er bæði stigalaust og markalaust í fyrstu tveimur útileikjum sumarsins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×