Lífið

Skrautlegur leikhópur Þorleifs

Þorleifur Örn glímir við Shakespeare og ástina á blogginu sínu.  Fréttablaðið/Arnþór
Þorleifur Örn glímir við Shakespeare og ástina á blogginu sínu. Fréttablaðið/Arnþór

Þorleifur Örn Arnarsson leikstjóri frumsýndi á föstudag Rómeó og Júlíu í kantónu St. Gallen í Sviss, en Filippía Elísdóttir og Vytautas Narbutas sjá um búninga og leikmynd. Á bloggi Þorleifs fer hins vegar tvennum sögum af uppsetningunni, en þar lýsir hann því yfir að fimmti þáttur verksins sé óþarfur og Rómeó og Júlía sé yfirborðskenndur farsi með banal ástarsenum. Þá er leikhópurinn teiknaður sem einfeldningslegur hópur ófrumlegra listamanna.

„Uppsetningarferlið er auðvitað rosalega slungið, ég er með gyðing sem leikur Rómeó og austur-evrópska bombu sem leikur Júlíu, en þetta stefnir allt í að verða ansi magnað,“ segir Þorleifur.

Hann leyfir sannleiksgildi bloggsins að liggja á milli hluta. „Ég meina, hvar byrjar skáldskapurinn og hvar endar raunveruleikinn?“ Hann segir bloggið innblásið af ævisögu Tom Waits. „Það er ömurlegt í bókinni þegar Waits fer að útskýra hvað er mýta og hvað ekki, ég bara hætti að lesa hana. Mýtan er miklu meira heillandi.“

„Eina ástin sem hægt er að skrifa um er sú sem á sér ekki stað, sem getur ekki gengið,“ segir Þorleifur á þeim nótum. „Ástin er í rauninni bara til í upphafinni list eða í einhverju ofboðslega prívat. Þetta er eitt sterkasta afl sem til er í manninum, en við erum samfélagslega búin að afneita því. Þess vegna er ógeðslega gaman að takast á við Rómeó og Júlíu og finna leið til að í alvörunni fjalla um tilfinninguna, ekki einhverja stæla.“ -kbs






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.